Færsluflokkur: Bloggar

Bretarnir koma, það væri eftir öðru

 

Á nú alveg að ganga fram af manni? Það væri eftir öðru að breski flugherinn kæmi hingað undir verndarvæng ríkistjórnarinnar til hernaðarbrölts, eða til “eftirlits” sem þessir ráðvilltu ráðamenn kalla fyrirbærið. Og á tugmilljóna kostnað okkar aumingjanna. Sjálf hryðjuverkaþjóðin undir verndarvæng ruglaðra tjalla. Ég kyngi ekki hverju sem er og er í reynd hugsi hvort ég eigi samleið lengur með þeim stjórnmálaöflum sem ég hef lengstum barist fyrir, það er Samfylkingunni. Nokkur dæmi sem mér finnast ekki ganga upp:

Seðlabankinn:

Seðlabankastjórnin situr enn, af hverju?.

Af hverju er ekki ráðinn einn bankastjóra sem kann til verka, fagaðili, sem veit um hvað málin eiga að snúast. Ég spyr hvaða tak hefur Sjálfstæðisflokkurinn á Samfylkingunni, eða hvað hefur íhaldið á Samfylkinguna? Það hlýtur að vera eitthvað svakalegt úr því að ekkert er gert til breytinga á stjórn Seðlabankans.

Stjórnendur bankanna:

Þar eru til verka kallaðir helstu stjórnendur gömlu bankanna, sumir hverjir enn með ofurlaun, af hverju? Jú skýringin er sögð sú að það þurfi kunnáttufólk til starfa í bönkunum. Það var þá kunnátta, þeir kunna allavega að setja bankana á hausinn. Má ég biðja um að vera án slíkra reynslubolta.

Afsagnir:

Bankastjórnendur, ráðherrar, þingmenn og fleiri setja þjóðina á hausinn og enginn segir af sér, einn ræfils þingmaður sendir út óvart tölvupóst og hann segir af sér á stundinni. Maður að meiru segja hinir og málið er dautt.

Lífeyrisómyndarlögin:

Haldið er áfram röflinu um að það þurfi að vanda svo mikið til verka að það náist ekki að afnema þessi sértæku græðgislög, fyrir toppana í þjóðfélaginu, fyrr en einhverntíma seinna. Það tók ekki marga daga að setja þessi ólög, vilji er greinilega allt sem þarf.

Krónan ónýt:

Það vita það allir að krónan er ónýt og öll lán, hvaðan sem þau koma og hversu stór þau verða, fara beint út um gluggann, ef minnsta tilraun verður gerð til að verja þennan handónýta gjaldmiðil.

Þeir sem ekki gera sér grein fyrir því eru ekki hæf.

 

Það þýðir ekkert að bjóða mér uppá síendurtekna frasa, að í stjórnarsamstarfi verði að taka tillit til sjónarmiða samstarfsaðilans, eða virkar það bara á annan veginn? Samkvæmt ofantöldu skilar það engu öðru en því að Sjálfstæðisflokkurinn tekur ekkert tillit til Samfylkingarinnar. Samfylkingin er knésett í hverju málinu af öðru, eða ríkir kannski sátt um aðgerðir eða réttara sagt aðgerðarleysið?

Það hlýtur reyndar að vera, þar sem upplýst hefur verið, að skoðun mikils meirihluta sjálfstæðismanna telur að krónan sé ónýt.

Bröltið eitt og sér við að troða okkur inn í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, með öllum þeim kostnaði og rugli, vakti strax efasemdir hjá mér hvort ég ætti samferð með slíkum gerendum.

 

Húrra, var að heyra rétt í þessu gleðilegar fréttir um að skera ætti niður í utanríkisþjónustunni, rúmir tveir milljarðar þar. Þetta líkar mér, meira af þessu af nógu er að taka, bruðlið þar hefur verið með endemum undanfarinn áratug og rúmlega það.


Ofurlaun útvalinna, ætlar þessu aldrei að linna?

Er ekki komið nóg. Nú berast fréttir um að nýráðnir bankastjórar nýju ríkisbankanna eigi að fá greidd ofurlaun fyrir ómak sitt við að verða bankastjórar. Hvaða helvítis vitleysa er hér í gangi, ætlar þessum andskota aldrei að linna? Það er ljóst að stjórnvöld ætla enn og aftur að misbjóða þjóð sinni? Á meðan hellt er yfir landsmenn frösum um að nú verði allir að standa saman, kreppan sé mikil, allir sem einn þurfi að færa fórnir. En hvað? Nei ekki fínu pappírarnir, þeir eru ekki með í þessum „skemmtilega“ leik sem þjóðinni er ætlað að taka þátt í. Alþingismenn skammta sér ofurkjör í ellilífeyrisgreiðslum, á sama tíma og launafólk horfir fram á skertar greiðslur úr sínum sjóðum. Ofurlaunum útvalinna verður ekki breytt og þeim stendur ekki til að breyta. Þegar stjórnvöld tala um að allir eigi að standa saman, þá er eins gott fyrir venjulegt fólk að átta sig á að þar er bara átt við almenning, sem man ekki stundinni lengur hvernig komið var fram við það þegar kosið verður næst. Man nokkur eftir ábyrgð Framsóknarmanna í þessum hrunadansi öllum, varla, þeir muna það ekki sjálfir, hlustið bara á þá núna.


Fáranleg framkoma RÚV

Ísland í beinni og nokkrir fá að sjá. Sú framkoma sem landsmönnum er sýnd með því að bjóða upp á ruglaða útsendingu í sjónvarpi, á fyrsta landsleik Íslands í forkeppni HM í knattspyrnu, er algjörlega til skammar og í reynd fáranleg framkoma. Þennan landsleik á að sýna á RÚV og hvergi annarstaðar. Við erum skyldug að borga áskrift af ríkisapparatinu og það er lágmark að sú stofnun sýni sóma sinn í því, í það minnsta, að sýna landsleiki þjóðarinnar beint og það í öllum íþróttagreinum. Varla hefði útsendingin í dag truflað dagská RÚV mikið, endursýndur þáttur á dagskrá RÚV, reyndar píningarþáttur á Kínabörnum, sem í sjálfu sér er nauðsynlegur áhorfunar, og Kínverjum til skammar. Hættum að hossa slíkum stjórnvöldum. Nóg um það í bili. RÚV, þið fallið enn einu sinni á prófinu, þið sinnið ekki augljósum lágmarkskröfum sem til ykkar  eru gerðar.

Talið minna, framkvæmið meira

Hver þingmaðurinn á fætur öðrum tjáir sig á Alþingi, (maður hefur lengi velt því fyrir sér hversvegna Alþingi er skrifað með stóru Ai, þvílíkt fyrirbæri), þingmenn úr öllum flokkum tjáðu sig á þingi í dag um launabaráttu ljósmæðra, allir hafa skilning á málinu og töluðu af þvílíkum þrótti um nauðsyn þess að ganga til samninga og semja um launabætur við ljósmæður og hvað svo? Bíddu, hver er fyrirstaðan? Ræður fjármálaráðherra þessu einn? Hvar eruð þið öll sem hafið svona góðan skilning á launabaráttu ljósmæðra? Voru fréttartímar, núna í þessum skrifuðum orðum, ekki að segja þjóðinni að slitnað hafi uppúr samningaviðræðum í dag, sama dag og allir höfðu svo góðan skilning. Þið, já þið þingmenn sem talið svona, sleppið því frekar að tjá ykkur um málið, ef þið meinið ekkert með því sem þið segið. Ættu ekki fleiri þingmenn að þegja en Guðni? Hundskist til að ganga að kröfum ljósmæðra, eins og þið sjálfir segið í þingi að eigi að gera, blaðrið minna, framkvæmið meira.

Þvílíkt kjaftæði

Forgangsröðun stjórnvalda er með ólíkindum. Ljósmæður fara fram á að laun þeirra verði í samræmi við aðrar starfsstéttir hjá ríkinu, með sambærilega menntun. Minnst 24% hækkun þarf til. Viðbrögð stjórnvalda eru ekki í samræmi við stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar, sem sérstaklega ætlaði að jafna launamun kynjanna.

Misskildi ég þetta, áttu launabætur bara við um sjálftökuliðið, sem ríflega hefur fengið sitt?

Nei nú er ekki borð fyrir báru, fjármálaráðherra ber fyrir sig að vegna stöðu efnahagsmála sé þrengra um vik til leiðréttinga á launum. Hvaða kaftæði er þetta.

Hélt staða efnahagsmála aftur af ráðamönnum sem flykktust til Kína á dögunum, heldur hún aftur af stanslausri  eyðslu í utanríkismálum, sendiráð í hverju krummaskuði, eða heldur hún aftur af ráðamönnum í endalausum fjáraustri við grobbframboð til Öryggisráðs Sameinuðuþjóðanna, eða í 100 milljóna króna kostnaði við hernaðarbrölt í nafni heræfingar við landið, Norður Víking, svo eitthvað sé nefnt?

Ég segi bara, hunskist til að semja við ljósmæður, sem og aðra þjóðfélagsþegna sem þurfa að lifa á launum sem eru ekki mönnum sæmandi, þar í hópi eru stór hópur launþega sem vinna umönnunarstörf. Leiðrétting launa ætti ekki að vefjast fyrir stjórnvöldum, loforð um það er í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og við orð á að standa.

 


Einn til bjargar

Hún er virðingarverð barátta Björgvins Guðmundssonar, sem hefur nánast verið eina röddin sem hefur  minnt stjórnvöld á þau mannréttindabrot sem stunduð eru gagnvart öldruðum og öryrkjum hér á landi. Undir verndarvæng stjórnvalda, eru þeir sem meira mega sín, hinir eiga að þegja, í besta falli að sækja sín réttindi í gegnum dómstóla. Milljarða fjármagnstekjur millanna bera 10% skatt, fjármagns-og verðbótaþáttur lífeyristekna bera hinsvegar fullan skatt. Hvenær á þessum mannréttindabrotum að linna? Björgvin, ég treysti þér manna best til að leiða baráttuna til enda, eina lausnin virðist vera að fara með málið fyrir Mannréttindadómstólinn. Eyðumerkurgögnu Björgvins verður að linna.

Hryllingurinn er mikill

Það kemur fyrir að mann setji hljóðan þegar tíðindi berast um þá neyð sem margir jarðarbúar lifa við. Í fréttum fjölmiðla blasa hörmungarnar við okkur. Já okkur setur hljóða og hvað svo? Við bara snúum okkur á hina hliðina, þetta er svo fjarlægt, við lifum í allt öðrum heimi, við vitum ekki, þekkjum ekki, skiljum ekki, kannski viljum ekki, af því að við höldum að við getum ekki, brugðist við til hjálpar. En er það svo? Leiðum við ekki margt hjá okkur, margt sem við teljum að sé ekki okkar mál, hvað getum við gert? Já, við getum verið afskiptalaus gagnvart þeim sem minna mega sín. Við lifum mörg hver, í okkar heimi, og teljum flest af því sem við höfum sem sjálfsagðan hlut. Allt á að snúast um að við höfum það sem best. Ef lífsgæðunum væri jafnað væri enginn hungraður á þessari jörðu, næg er fæðuframleiðslan. Meinið er bara það að alltof stór hluti jarðarbúa fær ekki mat, á ekki fyrir mat, hvað þá fyrir öðru nauðsynlegu til að lifa, á sama tíma og aðrir henda mat. Meira en einn milljarður manna í heiminum þjáist af hungri og vannæringu, þar af deyja 24 þúsund á degi hverjum. Fyrir 10 árum síðan dóu 35 þúsund á degi hverjum og 41 þúsund fyrir 20 árum síðan. Þetta sýnir svo ekki verður um villst að það er hægt að ná árangri þó hann sé ekki nægilegur. Hryllingurinn er mikill, 75% þeirra sem deyja úr hungri eru börn undir 5 ára aldri. (heimildir af netsíðu www.thehungersite.com ) Sitjum ekki hjá, við getum hjálpað. Það getum við meðal annars gert, án þess að hafa mikið fyrir því og án þess að það kosti nokkuð. Sem dæmi má nefna að með einni aðgerð, að fara á netsíðuna http://www.thehungersite.com , klikka á “ Click Here to Give – its FREE!” með þeirri aðgerð sjáum við til þess að fyrirtæki sem auglýsa á síðunni skuldbinda sig til að gefa hungruðum heimi ókeypis matargjafir. Fyrir hvert klikk, þegar við  kveikjum á tölvunni og netinu í framhaldi af því, sjáum við til þess að fátækum berast matarskammtar. Frá upphafi þessa verkefnis, sem hófst 1. júní árið 1999 hafa 300 milljónir heimsóknir verið á síðunni og hafa fyrirtækin gefið meira en 500 milljónir matarskammta. Hjálpum þeim sem minna mega sín. Ég hef þessa síðu sem upphafssíðu hjá mér bæði í vinnunni og heima, og byrja aldrei á netinu án matargjafar. Tekur ekkert frá mér, en gefur öðrum svo mikið, minna get ég ekki gert.

Nóg komið af ójöfnuði

Veggjald á þjóðveginum á milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja er úr öllum takti við stefnu ríkistjórnarinnar um jafnræði og eflingu landsbyggðarinnar. Vinur minn Kristján Möller samgönguráðherra þekkir manna best hversu örflugar samgöngur eru mikilvægar landsbyggðinni og væri ekki úr vegi að það yrði sýnt í verki, ríkið auki fjárframlög til reksturs Herjólfs með það fyrir augum að það kosti ekki meira að nota þjóðveginn á milli lands og Heimaeyjar, en aðra hluta þjóðvegakerfisins. Núverandi gjaldtaka er ekki bara ósanngjörn og ósvífin, heldur veldur hún ójöfnuði, það sitja ekki allir þegnar þessa lands við sama borð. Eflaust búa önnur eyjabyggðarlög á landinu við sama ranglæti, það sýnir enn frekar nauðsyn þess að ríkisvaldið láti málið til sín taka. Fyrir hjón með tvö börn á aldrinum 12-15 ára og bíl, kostar önnur leiðin milli Þorlákshafnar og Heimaeyjar 8.640.- krónur, eða 17.280.- krónur báðar leiðir og eru þá kojur ekki innifaldar í því verði. Sama fjölskylda getur keypt sér afsláttarkort, með því að leggja inn hjá fyrirtækinu 17.500.- krónur og kostar þá önnur leiðin 4.812,5 krónur og báðar leiðir 9.625.- krónur, kojur ekki innifaldar. Vegalengdin milli Þorlákshafnar og Heimaeyjar eru 72 kílómetrar og kostar sá viðbótarspotti mig á þjóðvegum landsins innan við 2.000.- krónur, (bensín, dekkjaslit, og annað, ekki nefna við mig tryggingar og skatta, ég þarf hvort sem er að greiða þau gjöld án tillits til ekna kílómetra, hvað þá að tala um afskriftir). Í mínum huga þá eru stjórnvöld að taka myndarlega á samgöngumálum með fyrirhuguðum siglingum í Bakkafjöru, þó ég hefði viljað sjá göngin verða að raunveruleika, en þar til að Bakkafjöruferja hefur siglingar er nauðsynlegt að stúta ósanngjarnri gjaldskrá Herjólfs.


Leiðbeininga- og klósettvatnslaus

Það er óhætt að segja að það sé ólund í flestum vegna hækkandi verðlags á öllum sviðum. Eldsneytisverð hefur ætt upp úr öllu valdi og er alla að drepa. Á sama tíma rakar ríkissjóður inn hærri tekjum af eldsneyti og þá ekki síst í gegnum virðisaukaskattinn. Hækkun á eldsneyti skilar ríkissjóði auknum tekjum í milljörðum króna á árinu. Þessu hefur verið óspart mótmælt eins og flestir vita og þarf ekki að fara mörgum orðum um það, enda annað sem vekur undrun mína þessa dagana. Það eru fréttirnar af viðbrögðum flugfélaganna í heiminum, vegna eldsneytiskreppunnar, en nú heyrast þær fréttir að fljúga eigi hægar, sleppa áfangastöðum, leggja óhentugum flugvélum, svo eitthvað sé nefnt, allt gott og blessað með þær hugmyndir, en áform um spara klósettvatnið og skilja handbækur, um stjórnun flugvéla, eftir á jörðu niðri, vegna þunga þeirra og treysta einungis á rafrænar upplýsingar, er eitthvað sem maður myndi kalla síðasta hálmstráið. Mér finnst einkennilegt að ekki skuli nefndir aðrir möguleikar áður en gripið verður til þeirra úrræða að skilja klósettvatnið og flugleiðbeiningarnar eftir heima, svo sem að stjórnendur flugstöðva snúi sölustreyminu við í “Fríhöfnunum” loki fyrir sölu á varningi í öllum flugstöðvum við brottför en leyfi sölu á varningi við komu til viðkomandi lands, (eins og tíðkast í Leifstöð, þar er reyndar opið á báða enda, líkt okkur). Og svo hitt, að hætta þessu bölvaða verslunarbrölti, á öðrum varningi en til næringar í flugvélum og gefa farþegunum frið. Með þessum tveimur aðgerðum myndu sparast flutningar í tonnavís í hverri flugferð. Ekki flókið.


Ísland með tvö lög í úrslitum Eurovision?

Hef lengi verið að koma mér af stað með skrif á bloggsíðunni minni, en það virðist enginn vera maður með mönnum nema að hann bloggi.

Reyndar stóð aldrei til, frá minni hendi, annað en að skrifa hér um það sem mér þætti stórmerkilegt og varðaði samfélagið og til að viðra skoðanir mínar, helst með innleggi mínu að hafa áhrif á landstjórnina, til gáfulegri verka.  

En þar sem öll þjóðin er að setja sig í gírinn fyrir sigur íslenska lagsins í söngvakeppni Eurovision, í kvöld, þá er hugurinn nokkuð á söngelsku línunum þessa stundina og því þessi skrif ekki beint í anda upphaflegra áforma.

Það sem ég hef verið að velta vöngum yfir er að hafa ekki heyrt neitt rætt né ritað um framlag Lettlands í Eurovision söngvakeppninni lagið "Wolves Of The Sea" sem í mínum haus hljómar alveg eins og lagið "Ho, ho, ho, we say hey, hey,hey", sem veitti "This is my live" eins og það heitir á ensku, harðasta keppni á lokakaflanum við val á framlagi okkar í keppnina. Er ég einn á þeirri skoðun að sennilega eigi Ísland tvö lög í úrlitakeppninni í kvöld, annað þeirra flutt af fólki í fötum, að hætti sjóræningja í den?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband