12.11.2008 | 18:13
Bretarnir koma, það væri eftir öðru
Á nú alveg að ganga fram af manni? Það væri eftir öðru að breski flugherinn kæmi hingað undir verndarvæng ríkistjórnarinnar til hernaðarbrölts, eða til eftirlits sem þessir ráðvilltu ráðamenn kalla fyrirbærið. Og á tugmilljóna kostnað okkar aumingjanna. Sjálf hryðjuverkaþjóðin undir verndarvæng ruglaðra tjalla. Ég kyngi ekki hverju sem er og er í reynd hugsi hvort ég eigi samleið lengur með þeim stjórnmálaöflum sem ég hef lengstum barist fyrir, það er Samfylkingunni. Nokkur dæmi sem mér finnast ekki ganga upp:
Seðlabankinn:
Seðlabankastjórnin situr enn, af hverju?.
Af hverju er ekki ráðinn einn bankastjóra sem kann til verka, fagaðili, sem veit um hvað málin eiga að snúast. Ég spyr hvaða tak hefur Sjálfstæðisflokkurinn á Samfylkingunni, eða hvað hefur íhaldið á Samfylkinguna? Það hlýtur að vera eitthvað svakalegt úr því að ekkert er gert til breytinga á stjórn Seðlabankans.
Stjórnendur bankanna:Þar eru til verka kallaðir helstu stjórnendur gömlu bankanna, sumir hverjir enn með ofurlaun, af hverju? Jú skýringin er sögð sú að það þurfi kunnáttufólk til starfa í bönkunum. Það var þá kunnátta, þeir kunna allavega að setja bankana á hausinn. Má ég biðja um að vera án slíkra reynslubolta.
Afsagnir:Bankastjórnendur, ráðherrar, þingmenn og fleiri setja þjóðina á hausinn og enginn segir af sér, einn ræfils þingmaður sendir út óvart tölvupóst og hann segir af sér á stundinni. Maður að meiru segja hinir og málið er dautt.
Lífeyrisómyndarlögin:Haldið er áfram röflinu um að það þurfi að vanda svo mikið til verka að það náist ekki að afnema þessi sértæku græðgislög, fyrir toppana í þjóðfélaginu, fyrr en einhverntíma seinna. Það tók ekki marga daga að setja þessi ólög, vilji er greinilega allt sem þarf.
Krónan ónýt:Það vita það allir að krónan er ónýt og öll lán, hvaðan sem þau koma og hversu stór þau verða, fara beint út um gluggann, ef minnsta tilraun verður gerð til að verja þennan handónýta gjaldmiðil.
Þeir sem ekki gera sér grein fyrir því eru ekki hæf.
Það þýðir ekkert að bjóða mér uppá síendurtekna frasa, að í stjórnarsamstarfi verði að taka tillit til sjónarmiða samstarfsaðilans, eða virkar það bara á annan veginn? Samkvæmt ofantöldu skilar það engu öðru en því að Sjálfstæðisflokkurinn tekur ekkert tillit til Samfylkingarinnar. Samfylkingin er knésett í hverju málinu af öðru, eða ríkir kannski sátt um aðgerðir eða réttara sagt aðgerðarleysið?
Það hlýtur reyndar að vera, þar sem upplýst hefur verið, að skoðun mikils meirihluta sjálfstæðismanna telur að krónan sé ónýt.
Bröltið eitt og sér við að troða okkur inn í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, með öllum þeim kostnaði og rugli, vakti strax efasemdir hjá mér hvort ég ætti samferð með slíkum gerendum.
Húrra, var að heyra rétt í þessu gleðilegar fréttir um að skera ætti niður í utanríkisþjónustunni, rúmir tveir milljarðar þar. Þetta líkar mér, meira af þessu af nógu er að taka, bruðlið þar hefur verið með endemum undanfarinn áratug og rúmlega það.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.